Wegovy í baráttunni við offitu

Wegovy fékk markaðsleyfi á Íslandi 1. október 2023. Lyfin Ozempic og Wegovy innihalda sama virka efnið, semaglutid og eru þannig í raun sama lyfið. Ozempic er gefið sem lyf til að meðhöndla sykursýki og er gefið í lægri skömmtum en Wegovy sem meðferðarúrræði við offitu. 

Hvernig virkar lyfið? 

Í stuttu máli virkar lyfið þannig að það dregur úr svengdartilfinningu og hægir á magatæmingu. Þú upplifir því að vera minna svöng/svangur og borðar minna.  

Fyrir hvern er Wegovy? 

Wegovy er fyrir einstaklinga með BMI hærra en 30 eða fyrir einstaklinga sem eru 27 í BMI eða hærri og að auki með einn eða fleiri fylgisjúkdóma eins og: sykursýki, háþrýsting, of háar blóðfitur, kæfisvefn og/eða hjarta og æðasjúkdóma. Þú getur reiknað þitt BMI hér.

Athugið að ekki er hægt að fá lyfinu ávísað ef þú uppfyllir ekki þessi ákvæði.

Lyfið er hugsað sem viðbót við heilsusamlegt mataræði og reglubundna hreyfingu og hafa rannsóknir sýnt fram á að sjúklingar geti verið að léttast að meðaltali um 15 -17% af líkamsþyngd sinni. 

Þess má geta að einstaklingar sem hafa farið í efnaskiptaaðgerð geta einnig notað lyfið og hefur það í sumum tilfellum hjálpað við aukið þyngdartap t.d. ef einstaklingur hefur þyngst aftur eftir aðgerð eða ekki náð ásættanlegu þyngdartapi. 

Hvernig er lyfið tekið inn? 

Lyfið er stungulyf og gefið undir húð einu sinni í viku og þarf að trappa upp skammtana smá saman eftir því  hvernig sjúklingurinn þolir lyfið. Yfirleitt er byrjað með 0,25mg skammti, smátt og smátt er skammturinn aukinn upp í 2,4 mg eða eins og hentar best fyrir sjúklinginn. Upptröppunin getur tekið allt að 4 mánuði.  

Hvaða aukaverkanir getur lyfið haft? 

Eins og flest lyf er það ekki laust við aukaverkanir en þær helstu eru óþægindi frá meltingarvegi. 

  • Ógleði og uppköst (vegna þess að lyfið hægir á meltingarstafsemi) 
  • Hægðatregða – sama ástæða og hér að ofan – mikilvægt að drekka vel.  
  • Þreyta – gæta þess að næra sig nóg þrátt fyrir minnkandi matarlist.  

Hvað gerist ef þú hættir að nota lyfið? 

Margar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur vilji eða þurfi að hætta meðferðinni og þá er mikilvægt að muna að matarlyst og skammtastærðir geta aukist að nýju og hætta er á þyngdaraukningu. 

Hvað kostar lyfið? 

Wegovy er ekki niðurgreitt af sjúkratryggingum nema í undantekningartilfellum og því þarf sjúklingurinn sjálfur að standa straum af kostnaði við að nota lyfið. 

Hámarks smásöluverð fyrir upphafsskammtinn (0,25mg) er kr. 27.369. Hámarksverð fyrir hæsta skammt  (2,4 mg) er kr.43.404.  

Hver getur ávísað lyfinu? 

Læknir þarf að ávísa lyfinu. 

Þú getur fengið nánari upplýsingar um lyfið og hvort það geti hentað þér með því að bóka viðtal á Klíníkinni. 

Við mælum einnig með að kynna sér vel lyfjaupplýsingarnar um Wegovy

Deila:

Um okkur

Klíníkin Ármúla er nútíma læknamiðstöð þar sem sérfræðingar vinna saman að bættri heilsu þinni. Markmið okkar er að vera leiðandi í þróun á öruggri hágæða læknisþjónustu. 

Síðustu greinar

Fréttabréf

Ertu með spurningar?

Ekki hika við að senda okkur línu.