Það finnast ekki margar rannsóknir um tannheilsu eftir efnaskiptaaðgerðir en niðurstöður úr þeim og reynsluþekking benda til að ástæða sé til að fræða og huga vel að tannheilsunni bæði fyrir og eftir aðgerð.
Breytingar á sýrustigi í munni
Það er eðlilegt að sýrustig í munni sveiflist eitthvað en að jafnaði ættum við ekki að vera með langvarandi sýrustig undir 5,5 PH. Þegar við borðum sveiflast sýrustigið en við lágt sýrustig (undir 5,5PH) losnar kalk úr glerungnum sem gerir tennurnar viðkvæmari fyrir tannskemmdum. Venjulega jafnar sýrustigið sig fljótt eftir máltíð og kalk sem fór úr glerungnum kemst aftur tilbaka á sinn stað. Það er hinsvegar ýmislegt sem getur valdið því að sýrustigið helst lengi lágt og eykur þannig hættu á tannskemmdum.
Algengustu ástæður fyrir breytingu á sýrustigi í munni hjá einstaklingum sem farið hafa í efnaskiptaaðgerð:
- Nart og margar máltíðir yfir daginn.
Eftir aðgerð er mælt með að þú borðir oftar yfir daginn vegna þess að maginn er miklu minni en hann var fyrir aðgerð. Jafnvel þó að maturinn sem þú borðar sé ekki súr lækkar sýrustigiðvegna efna sem bakteríur í munninum mynda við að melta fæðuna. Sælgæti og sumir ávextir geta líka verið með lágt sýrustig sem lengir enn meira tímann með óheppilega lágu PH gildi í munni. Lágt sýrustig veikir tennurnar og eykur líkur á tannskemmdum.
- Súrir drykkir
Margir njóta þess að drekka drykki sem er búið að bæta við kolsýru og einhverju bragði. Kolsýra er veldur því að drykkurinn lækkar aðeins í sýrustigi (þó ekki mjög mikið). Bragðefni lækka sýrustigið oft enn meira en dæmigert bragðefni í drykkjum er sitrónusýra sem hefur mjög lágt PH gildi. Til þess að draga úr súra bragðinu er stundum bætt við sykri eða gerfisætu. Sýrustigið kann þó enn að vera mjög lágt.
Dæmi um drykki og sýrustig:
- CocaCola 2,5 PH
- Pepsi Max 2,9 PH
- Gatorade/appelsínu 3,28 PH
- Eplasafi 3,6 PH
- Appelsínusafi 3,8 PH
- Nýmjólk 6,78 PH
- Kaffi 4, 8 – 5,1 PH
- Vatn 7,7 PH
Það skiptir miklu máli hvort þú ert að drekka drykki með lágt PH allan daginn eða yfir stutt tímabil.
Ef þú ert þegar komin/n með tannskemmdir eða eyðingu á glerung ættir þú að forðast súra drykki og ef þú neytir þeirra er betra að drekka með sogröri. Það getur hjálpað að skola munninn með vatni á eftir.
- Breytingar á magasýru
Bakflæði bæði sem orsök af offitu og sem fylgikvilli eftir efnaskiptaaðgerð geta valdið hækkuðu sýrustigi í munni. Bakflæði er magasýra sem flæðir upp eftir vélindanu og stundum í munnholið með eða án brjóstsviðatilfinningu. Einstaklingar sem kasta oft upp eru líka í aukinni hættu á að upplifa tannskemmdir vegna viðvarandi lágs sýrustigs.
Ef þú ert með bakflæði er mikilvægt að meðhöndla það með viðeigandi lyfjum bæði til þess að vernda þau svæði sem sýran úr maga getur ert og tennurnar þínar.
Ef þú kastar upp ættir þú ekki að bursta tennurnar strax á eftir – því sýran frá maganum veikir glerunginn og að bursta tennurnar slípar hann enn frekar niður. Betra er að skola munninn með vatni og bursta svo eftir um klst.
- Breytingar á munnvatnsframleiðslu
Munnvatn þjónar mikilvægum tilgangi fyrir tannheilsu okkar. Munnvatnið viðheldur sýrustigi munnsins og tanna um 7,0 PH og í munnvatninu er meðal annars kalk sem er mikilvægt fyrir viðhald og heilbrigði glerungsins. Margir sem hafa farið í efnaskiptaaðgerð upplifa talseverðan munnþurrk en lítið munnvatn getur lengt sýrutímabilið eftir mat/drykk og þannig aukið líkur á tannskemmdum.
Minnkuð munnvatnsframleiðsla getur líka verið aukaverkun lyfja. Hægt er að fá sogtöflur og sprey án lyfseðils sem geta hjálpað við munnþurrki.
Hugsaðu vel um tennurnar – þú vilt eiga þær alla ævi
Heimilidir:
Quintella MCM, Farias T, SoutoMaior JR, Casado B, Leão RS, Moraes SLD. Relationship between bariatric surgery and dental erosion: a systematic review. Surg Obes Relat Dis. 2020;16(9):1283-90
Bæklingur um tannheilsu eftir aðgerð eftir G.Mjøen, E. Romstad, L.Myran og M.Strømmen https://uploads-ssl.webflow.com/5fb63fd41d6bd704a16a0d9a/642538c6c7e054641b730b25_Bar-oral-brochure-for-pasienter.pdf