Efnaskiptaaðgerðir eða offituskurðaðgerðir eins og þær eru líka kallaðar eru taldar vera árangursríkasta meðferðin við offitu í dag. Einstaklingar sem fara í slíkar aðgerðir geta búist við verulegu þyngdartapi eða allt að 50 – 70% af umframþyngd sinni á fyrstu 2 árunum eftir skurðaðgerð. 

Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hversu mikið hver og einn kemur til með að léttast en gerð aðgerðar, þyngd fyrir aðgerð, almennt heilsufar og hvernig einstaklingnum gengur að fylgja ráðleggingum um lífsstílsbreytingar hafa þar mikið vægi.  

Magahjáveituaðgerð leiðir venjulega til meira þyngdartaps en magaermi til lengri tíma. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar sem fara í magahjáveitu geta vænst þess að missa um 60% til 70% af yfirþyngdinni. Þeir sem fara í magaermi geta aftur á móti átt vona á að léttast um 50% til 60% af yfirþyngdinni.

Fyrsta árið eftir aðgerð er sá tími sem þyngdartapið er langmest.  Hjá þeim sem fara í magaermi eru flestir að ná sinni lægstu líkamsþyngd um 12 mánuðum eftir aðgerð. Hjá þeim sem fara í hjáveitu má búast við að þyngdartapið hægist/stöðvist við 1 8 – 24 mánuði. Það er hinsvegar mjög mikilvægt að vita að mikill munur er á milli einstaklinga og tölurnar sem nefndar eru hér að ofan eru byggðar á meðaltali. Enn sem komið er getum við ekki spáð fyrir um hversu mikið hver og einn muni léttast eftir aðgerð.

Það er mikilvægt að muna að þyngdartapið sjálft er ekki alltaf aðalástæða skurðaðgerðar því heilsuávinningurinn getur verið fjölþættur.  Til dæmis getur háþrýstingur batnað og sumir geta jafnvel hætt á blóðþrýstingslyfjum. Einstaklingar með sykursýki geta minnkað lyfjaskammtana eða jafnvel hætt á sykursýkilyfjum. Kæfisvefn getur læknast og almennt upplifa flestir bætt svefngæði. Við að léttast dregur úr álagi á liði og flestir eiga auðveldara með hreyfingu og upplifa minni stoðkerfisverki. 

Efnaskiptaaðgerð er ekki lækning á offitu, aðgerðin hjálpar þér hinsvegar að komast á nýjan upphafspunkt. Allir þurfa að vinna með lífsstílsbreytingar eftir aðgerð, bæta mataræðið, auka hreyfinguna draga úr streitu og gæta að svefninum. 

 

Hvernig reiknar maður kjörþyngd og yfirþyngd? 

Venjulega er notast við líkamsþyngdarstuðulinn (e. BMI – body mass index) til þess að finna út kjörþyngd og umframþyngd einstaklings. Hér getur þú reiknað út þitt BMI.  

 

Dæmi:

Einstaklingur sem er 120kg og 169cm á hæð er 42.02 í BMI.

BMI sem er 24,9 telst vera kjörþyngd. Því er  umframþyngdin í þessu dæmi  BMI 17,12.

50% þyngdartap af yfirþyngd: Er BMI 8,56   = 24,5 kg 

70% þyngdartap af yfirþyngd: Er BMI 11,98 = 34,3 kg 

100% þyngdartap af yfirþyngd: Er BMI 17,12 = 49 kg 

Heimilidir:

O’Brien, P.E., Hindle, A., Brennan, L. et al. Long-Term Outcomes After Bariatric Surgery: a Systematic Review and Meta-analysis of Weight Loss at 10 or More Years for All Bariatric Procedures and a Single-Centre Review of 20-Year Outcomes After Adjustable Gastric Banding. OBES SURG 29, 3–14 (2019). https://doi.org/10.1007/s11695-018-3525-0

Golzarand, M., Toolabi, K. & Farid, R. The bariatric surgery and weight losing: a meta-analysis in the long- and very long-term effects of laparoscopic adjustable gastric banding, laparoscopic Roux-en-Y gastric bypass and laparoscopic sleeve gastrectomy on weight loss in adults. Surg Endosc 31, 4331–4345 (2017). https://doi.org/10.1007/s00464-017-55

Deila:

Um okkur

Klíníkin Ármúla er nútíma læknamiðstöð þar sem sérfræðingar vinna saman að bættri heilsu þinni. Markmið okkar er að vera leiðandi í þróun á öruggri hágæða læknisþjónustu. 

Síðustu greinar

Fréttabréf

Ertu með spurningar?

Ekki hika við að senda okkur línu.