Hægðatregða er mjög algenfur fylgikvilli eftir efnaskiptaaðgerðir. Algengt er að einstaklingar finni fyrir að hægðalosun verði sjaldnar en áður, sem þarf þó ekki að þýða að þú sért með hægðatregðu. Einstaklingar sem fara í magaermi finna oftar fyrir hægðatregðu en einstaklingar sem hafa farið í hjáveitu.  

Algengt er að finna fyrir hægðatregðu í allt að 6 mánuði eftir aðgerð en oftast komast hægðir í lag eftir þann tíma. 

Yfirleitt er miðað  við að þú sért með hægðatregðu ef meira en 3 dagar líða á milli þess sem þú hefur hægðir. Hægðir ættu líka að vera mjúkar og auðvelt að koma frá sér.  

Helstu dæmi um einkenni hægðatregðu: 

  1. Magaverkir eða magakrampar.  
  2. Hægðir sjaldnar en 3x í viku. 
  3. Þaninn kviður. 
  4. Hefur þörf fyrir að losa hægðir en getur ekki. 
  5. Vanlíðan. 
  6. Ógleði.
  7. Minni svengdartilfinning. 

Af hverju fær maður hægðatregðu eftir aðgerð? 

  1. Vökvainntaka er of lítil. 
  2. Ekki nóg af trefjum. 
  3. Hægari melting vegna minni fæðuinntektar og hormónaáhrifa í kjölfar aðgerðar (á líka við um lyf eins og Ozempic og Wegovy). 
  4. Mikið magn próteina í fæðu. 
  5. Mikið magn mjólkur í fæðu. 
  6. Járn og kalk úr vítamínum. 
  7. Verkjalyf (morfínskyld). 
  8. Minni hreyfing. 

Hvað getur þú gert til að koma meltingunni í lag? 

NÆRING OG HREYFING: 

  1. Drekktu nóg af vökva. 
  2. Hreyfðu þig. 
  3. Borðaðu trefjaríkan mat (grænmeti, ávexti, baunir, gróft kornmeti). Kiwi getur líka virkað mjög vel. 
  4. Taktu eina matskeið af hörfræjum eða chiafræjum tvisvar á dag og drekktu vel með. 
  5. Prófaðu að draga úr inntöku á mjólkurvörum. 
  6. Hafðu reglubundnar salernisferðir (ekki halda í þér). 
  7. Sittu með upphækkun undir fætur(settu t.d. skemil undir fætur). 
  8. Forðast lyf sem valda hægðatregðu. 

Stundum duga ekki þessi venjulegu ráð og þá þarf stundum að grípa til lyfja. 

LYF:  

Rúmmálsaukandi lyf, það þarf alltaf að drekka vel með slíkum lyfjum því þau draga vökva í ristilinn og auka þannig rúmmál hægða og örva þannig þarmahreyfingar.  

  1. Psyllium/HUSK – (má taka daglega ef þolist vel) Gættu þess að það þarf að drekka vel með – er tæknilega ekki lyf en hefur rúmmálsaukandi áhrif.
  2. Magnesium (Magnesia medic, fæst án lyfsseðils)og Magnesia Dac (lyfseðilskylt) Þolist oftast vel. 
  3. Medilax/Sorbitol – en geta valdið dumpingeinkennum hjá sumum einstaklingum. 

Lyf sem auka hreyfingu þarma: Slík meðferð er alltaf skammtíma meðferð og ætti ekki að endurtaka oft.  

  1. Microlax,  virkar neðst í endaþarminum og mýkir hægðirnar og flýtir losun.
  2. Laxoberal dropar, auka þarmahreyfingar og flýta tæmingu. Geta valdið lækkun á kalíum við langvarandi notkun.
  3. Senokot (undanþágulyf). Hefur áhrif á þarmahreyfingar.  
  4. Toilax, hefur áhrif á þarmahreyfingar. 

Ef ofangreind ráð duga ekki og þú ert enn að þjást af hægðatregðu þá skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur á Klíníkinni.

Heimildir: 

https://www.heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/haegdatregda-hja-fullordnum/ 

https://throunarmidstod.is/svid-thih/lyfjasvid/leidbeiningar-um-lyfjaval/meltingarsjukdomar/ 

Eltorki, M., Leong, R., & Ratcliffe, E. M. (2022). Kiwifruit and Kiwifruit Extracts for Treatment of Constipation: A Systematic Review and Meta-Analysis. Canadian journal of gastroenterology & hepatology2022, 7596920. https://doi.org/10.1155/2022/7596920 

Deila:

Um okkur

Klíníkin Ármúla er nútíma læknamiðstöð þar sem sérfræðingar vinna saman að bættri heilsu þinni. Markmið okkar er að vera leiðandi í þróun á öruggri hágæða læknisþjónustu. 

Fylgdu okkur

Fréttabréf

Ertu með spurningar?

Ekki hika við að senda okkur línu.