Almennar umgengnisreglur um verkjalyf:
– Notaðu minnsta nauðsynlega skammt í sem skemmstan tíma
– Ekki blanda áfengi við nein verkjalyf
– Geymdu verkjalyf þar sem börn ná ekki til, best er að læsa þau inni
– Geymdu verkjalyf ávallt í upphaflegum umbúðum til að forðast rugling
– Skilaðu morfínskyldum verkjalyfjum í apótek þegar þú þarft þau ekki lengur. Um 5% þeirra sem aldrei hafa notað morfín-skyld verkjalyf fyrir aðgerð eru líklegir til að nota þau ennþá ári eftir aðgerðina. Líkurnar á slíkri misnotkun eru mjög litlar ef þessi sterku verkjalyf eru notuð í 5 daga eða skemur.
Verkjalyf í tengslum við aðgerðina og í legunni:
– Í aðgerðinni færðu nokkrar tegundir verkjalyfja til að fyrirbyggja slæma verki þegar þú vaknar. Í flestum tilvikum eru gefin sterk morfín-skyld verkjalyf (Fentanyl) og bólguminnkandi lyf (Toradol). Í aðgerðinni eru jafnframt notuð staðdeyfingarlyf sem minnka þörfina á sterkum verkjalyfjum fyrstu klukkutímana eftir aðgerð.
– Það er mjög einstaklingsbundið hversu slæmir verkirnir eru fyrstu klukkutímana eftir aðgerð. Hjúkrunarfræðingar á vöknun og legudeild meta þörfina á verkjalyfjum sem eru gefin eftir þörfum.
– Þú færð Panodil (paracetamol) uppáskrifað í tengslum við aðgerðina. E
f við metum verkina í legunni sem slæma færðu sterk (morfín-skyld) verkjalyf með þér heim sem duga í 1-2 daga. Í flestum tilvikum dugar það og heyrir til undantekninga að skrifað sé upp á sterkari verkjalyf.
– Það er eðlilegt að finna fyrir verkjum í kjölfar aðgerðarinnar. Markmiðið með verkjameðferð er að minnka verkina þannig að þú eigir hægt um aðhreyfa þig og draga djúpt andann.
Síðari tíma notkun verkjalyfja hjá einstaklingum sem hafa farið í efnaskiptaaðgerð
Panodil (paracetamol): Gott fyrsta verkjalyf sem hefur líka hitalækkandi áhrif. Þarf að nota með varkárni ef lifrarsjúkdómur er til staðar. Getur valdið lifrarskemmdum ef notað í of miklu magni. Almennt er fullorðnum ekki ráðlagt að nota meira en 4.000 mg á dag.
Hefðbundin bólgueyðandi lyf (t.d íbúfen, naproxen, voltaren), sk NSAID lyf: Hafa bólguminnkandi og verkjastillandi áhrif. Þessi lyf má nota í skamman tíma, eins og við tíðaverkjum eða höfuðverk. Varast skal að nota þau til lengri tíma vegna hættu á aukaverkunum. Algengar aukaverkanir eru magasár sem geta síðan valdið blæðingu eða rofi á maga eða görn sem krefst meðferðar á sjúkrahúsi. Þessi tegund bólgueyðandi lyfja er sérstaklega varhugaverð eftir hjáveituaðgerðir þar sem aukin hætta er á sárum í tengingunum við smágirni.
Nýrri tegund bólgueyðandi lyfja (t.d. celebra eða arcoxia), sk COX2 hemlar: Þessi tegund bólgueyðandi verkjalyfja hentar betur þegar langvarandi notkun er nauðsynleg, t.d. við krónískum stoðkerfisverkjum. Tíðni magasára er lægri en þegar NSAID lyf eru notuð.
Taugaverkjalyf (t.d. Gabapentin) eru notuð við verkjum frá taugum. Efnaskiptaaðgerðir hafa ekki bein áhrif á notkun þessara verkjalyfja og geta þau því verið notuð skv ráðleggingum ef við á.
Morfín-skyld verkjalyf (Tradolan, Oxynorm, Oxycontin, Parkodin o.fl): Sterk verkjalyf með mörgum aukaverkunum. Þessi lyf á einungis að nota við mjög slæmum verkjum og einungis í skamman tíma. Helstu aukaverkanir eru ógleði, hægðatregða, höfuðverkur, svimi, þreyta, kláði, minnkuð öndunartíðni eða öndunarþörf. Mikil hætta á ánetjun, misnotkun og ofskömmtun sem getur leitt til andláts vegna lágrar öndunartíðni.