Eftir efnaskiptaaðgerðir er mælt með inntöku vítamína ævilangt. Bæði vegna þess að fæðuinntaka og fjölbreytileiki hennar getur hjá mörgum minnkað verulega en ekki síst vegna þess að líffræði maga og þarma hefur einnig verið breytt.
Langflestir þeirra sem fara í efnaskiptaaðgerð gæta þess að taka vítamín og steinefni til þess að fyrirbyggja skort. Hins vegar vita ekki allir að margar unnar matvörur og drykkir innihalda viðbætt vítamín. Vegna þessa eru margir að fá ofskömmtun vítamína án þess að vita af því. Yfirleitt er þetta að mestu skaðlaust en þú ættir þó að vita hvað þú ert að láta ofan í þig.
Á Klíníkinni er mælt með reglulegum blóðprufum og viðtölum í kjölfar aðgerðar og þá sjást stundum verulegar hækkanir á einstökum vítamíngildum. Þegar einstaklingar eru spurðir um inntöku vítamína kemur stundum í ljós að þeir eru að taka hefðbundin vítamín en að auki at taka t.d. hárvítamín, drekka drykki eða borða fæðu sem innihalda viðbætt vítamín.
Hér má sjá dæmi um hversu mikið er að finna af nokkrum völdum vítamínum/steinefnum í algengum drykkjum og matvörum sem fólk er að neyta.
Matvara/vítamín | B12 * | Fólinsýra * | Járn * | D vítamín * |
Hár Vítamínangsar Sugarbear Hair Vitamins | 100% | 65% | 0% | 100% |
Nocco Tropical | 50% | 15% | 0% | 30% |
Collab, Passion fruit and lemon | 25% | 25% | 0% | 0% |
Vit-Hit Immuenitea | 100% | 0% | 0% | 0% |
Cheerios | 20% | 45 mcr | 70% | 20% |
Baricol vitamin (dagsskammtur) | 28000% | 200% | 357% | 900% |
* hlutfall af ráðlögðum dagsskammti uppgefið á umbúðum.
Eins og sést á þessari töflu eru vítamín sem eru ætluð einstaklingum sem hafa farið í efnaskiptaaðgerð með háa skammta af einstökum vítamínum. Flestir þurfa á þessum skömmtum að halda en stundum þarf að aðlaga skammta eða gerð vítamína til þess að mæta þörfum hvers og eins.
Vegna þessa er mikilvægt er að taka reglulega blóðprufur til þess að fylgjast með stöðu vítamína til þess að fyrirbyggja van- og ofskömmtun. Þess ber þó að geta að í blóðprufum eru ekki öll vítamín og steinefni mæld.
Við mælum því eindregið með að allir sem farið hafa í efnaskiptaaðgerð séu duglegir að kynna sér innihald matvæla og vítamína sem þeir eru að neyta. Matvörur sem koma beint úr náttúrunni og eru óunnar eru ólíklegar til þess að valda óeðlilegum hækkunum á vítamíngildum í blóði.
Hér má einnig finna nánari upplýsingar um vítamín og áhrif ofskömmtunar á vísindavef Háskóla Íslands
Vítamín fyrir einstaklinga sem hafa farið í efnaskiptaaðgerð má finna á Provit.is