Mikill þrýstingur er í samfélaginu um að halda sér grönnum og er álitið að grannur líkami sé tákn um að vera heilsusamlegur og fallegur á meðan það að vera feitlaginn er tengt við að einstaklingurinn sé agalaus og latur.

Þessar miklu kröfur frá samfélaginu stuðla að fitufordómum. Sá sem er feitur er talinn latur, gráðugur og óheilbrigður. Sýnt hefur verið fram á að fitufordómar hafa neikvæð áhrif á heilsu, hegðun og félagslega hegðun hjá einstaklingum sem eru of þungir. Jafnframt stuðla fordómarnir að lélegu sjálfsmati, þunglyndi, kvíða, minni líkamsrækt, tilfinningalegu áti og því að einstaklingurinn borðar ekki fyrir framan aðra heldur í laumi. Þeir sem upplifa fitufordóma eru seinni að sækja sér aðstoð ef eitthvað bjátar á, upplifa einmanaleika sem leiðir til þess að þeir draga sig til baka félagslega og eiga í erfiðleikum í nýjum samböndum.

Fordómar varðandi þyngd og sú trú að allir eiga að vera grannir, geta ýtt undir neikvæða sjálfsímynd og óánægju með líkamann og þar af leiðandi óheilbrigt samband við mat eins og lotuofát og lotugræðgi. Þeir sem upplifa fordóma varðandi þyngdina eru líklegri til að verða feitir. Megrun leiðir ekki til þyngdartaps heldur þvert á móti eykur líkurnar á þyngdaraukningu og stuðlar þar af leiðandi að offitufaraldrinum. Offitufaraldurinn hefur staðið yfir í meira en þrjá áratugi og þrátt fyrir mikinn fjölda megrunarkúra og bóka er lítill ávinningur.

Flest vitum við hvað  megrun og megrunarkúrar eru. Mörg börn kynnast því snemma hvað megrun er og algengt er að þau fái upplýsingarnar frá foreldrum, fjölmiðlum og auglýsingum. Þrýstingur frá fjölmiðlum og samfélaginu um að vera grannur eykur líkurnar á að fólk verði óánægt með líkamsform sitt og þyngd, hafi verri sjálfsímynd og reyni að takmarka fæðuinntökuna til að hafa áhrif á þyngdina. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að einstaklingar sem takmarka fæðu sína eru í aukinni áhættu á að taka svokölluð átköst og verða því þyngri en þeir voru fyrir megrun. Einnig eru auknar líkur á átröskunum þar sem megrun er stór áhættuþáttur. Fæðutakmörkun eykur oft löngunina í ákveðna fæðu og því getur megrun haft öfug áhrif, einstaklingurinn borðar meira og þyngist. Þegar einn kúrinn klikkar, þá er alltaf kominn nýr sem lofar að nú loksins munu allir grennast. Staðreyndin er sú að flestir þessara kúra virka alls ekki. Þrátt fyrir að til séu fleiri megrunarkúrar nú en nokkru sinni áður, þá er ofþyngd og offita mun algengari en áður og einstaklingurinn lendir í eins konar vítahring megrunar og falls. Þar sem megrun er ekki ástand sem varir að eilífu kemur ávallt að því að einstaklingurinn stígur út af þeirri braut sem afmörkuð er í kúrnum og „fellur.“ Fallið getur leitt af sér mikla óánægju, tilfinningu um ósigur og misheppnun. Þessar tilfinningar leiða í mörgum tilfellum til þess að fólk leiti sér huggunar í mat, sem veldur svo aftur þyngdaraukningu og oft á tíðum endar einstaklingurinn á því að vera þyngri eftir megrunarkúrinn heldur en áður en hann byrjaði.

Afleiðingar megrunar, meðal annars:

  • Grunnbrennsla minnkar
  • Aukin hætta á átköstum
  • Pirringur og skapsveiflur
  • Kvíði
  • Þunglyndi
  • þráhyggja

Höfundur:

Rut Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur

Hægt er að lesa BS verkefni Rutar um skaðleg áhrif megrunar hér:

https://skemman.is/bitstream/1946/21655/1/RUTBS-20150526.pdf

Deila:

Um okkur

Klíníkin Ármúla er nútíma læknamiðstöð þar sem sérfræðingar vinna saman að bættri heilsu þinni. Markmið okkar er að vera leiðandi í þróun á öruggri hágæða læknisþjónustu. 

Síðustu greinar

Fréttabréf

Ertu með spurningar?

Ekki hika við að senda okkur línu.