Af hverju þarf að passa sérstaklega upp á vöðvana?

Lyf sem virka á GLP-1 hormónakerfið, eins og Wegovy (semaglutide), hafa valdið byltingu í meðferð við offitu. Þau minnka svengd, bæta blóðsykurstjórnun og leiða oft til verulegs þyngdartaps. En nýjar rannsóknir sýna að þyngdartap með þessum lyfjum felur ekki aðeins í sér tap á fitu – heldur getur hluti þyngdartapsins einnig verið vöðvamassi. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að styðja og viðhalda vöðvastyrk á meðan meðferð stendur.


Af hverju dregur úr vöðvamassa við þyngdartap?

Allt þyngdartap, líka það sem næst með breyttu mataræði, felur í sér blöndu af fitutapi og vöðvatapi. GLP-1 lyfin geta hraðað þyngdartapinu jafnvel þó að ekki sé hugað að gæðum fæðunnar. Bágborið mataræði (næringarsnautt og próteinlítið) og lítil markviss hreyfing getur aukið á vöðvatapið enn frekar. 

Rannsóknir benda til að:

  • Í stórum rannsóknum á semaglutide var allt að 25–40% af heildarþyngdartapi tengt fitulausum massa, þar með talið vöðvum.

  • Þyngdartap án viðnámsþjálfunar eða nægs próteins leiðir nánast alltaf til einhverrar rýrnunar í vöðvum.

Aldur spilar einnig stórt hlutverk: eftir 40 ára aldur tapar fólk eðlilega 0,5–1% vöðvamassa á ári og GLP-1 lyf geta hraðað þeirri þróun ef ekkert er að gert.


Hvernig hefur GLP-1 lyfjameðferð áhrif á vöðva?

GLP-1 lyf virka fyrst og fremst á blóðsykurstjórn, hungurtilfinningu og meltingarhraða, en ekki beint á vöðva. Áhrifin á vöðvamassa eru hins vegar óbein:

1. Minnkuð matarlyst og minni próteininntaka

Fólk borðar minna, stundum miklu minna. Það getur þýtt:

  • minni próteininntaka

  • minni orkuinntaka

  • minni örvun á vöðvauppbyggingu (protein synthesis)

2. Minni ávinningur af hreyfingu vegna minni orku

Sumum finnst orkan dvína, sem getur dregið úr hreyfingu og þannig minnkað hvata til vöðvauppbyggingar. 

3. Hratt þyngdartap getur valdið hraðari niðurbroti á vöðvavef 

Líkaminn sækir í próteinið sem byggir upp vöðvana ef próteininntaka og hvati til að byggja upp vöðva (s.s. hreyfingarleysi) eru ófullnægjandi.

4. Aldurstengd áhrif

Eldri einstaklingar eru viðkvæmari fyrir vöðvatapi (sarcopeniu), og GLP-1 lyf geta aukið þá áhættu.


Af hverju skiptir vöðvamassi svona miklu máli í meðferð með Wegovy?

Vöðvamassi hefur áhrif á nánast allt sem varðar heilsu, hreyfigetu og efnaskipti. Vöðvar:

  • hækka grunnbrennslu (BMR)

  • styðja við liðamót og hrygg

  • viðhalda stöðugleika og jafnvægi

  • draga úr fallhættu og meiðslum

  • styðja við blóðsykur og insúlínnæmi

  • auka lífsgæði

Ef vöðvar rýrna of mikið er hættan sú að:

  • grunnbrennsla lækkar og það verður auðveldara að þyngjast aftur

  • styrkur og snerpa minnkar

  • líkaminn verður viðkvæmari fyrir meiðslum

  • bati í kjölfar sjúkdóma/slysa verður erfiðari

Rannsóknir sýna að vöðvatap á meðan á lyfjameðferð stendur getur gert langtímaárangur verri, sérstaklega ef markmiðið er að halda þyngdinni niðri þegar lyfjameðferð hættir.


Hvernig ver maður vöðvamassann fyrir rýrnun?

1. Viðnámsæfingar 2–3x í viku

Rannsóknir sýna að viðnám er besta leiðin til að halda vöðvum.
Þarf ekki vera á líkamsræktarstöð — líkamsþyngd, teygjubönd og jóga með styrkáherslu virkar.

2. Prótein í hverri máltíð

Markmið:

  • 1,0–1,2 g prótein á hvert kg líkamsþyngdar á dag

  • próteinríkar máltíðir (egg, baunir, skyr, fiskur, kjúklingur, tofu)

3. Næg orka

Ekki borða of lítið – líkaminn þarf orku til að byggja.

4. Regluleg mæling á líkamsamsetningu

Mikilvægt að mæla:

  • vöðvamassa

  • fituprósentu

  • vöðvagæði

5. Hreyfing sem eykur hreyfanleika og stöðugleika

Öll hreyfing telur hvort sem það er jóga, göngur eða styrktaræfingar, allt stuðlar að aukinni virkni vöðva.


Deila:

Um okkur

Klíníkin Ármúla er nútíma læknamiðstöð þar sem sérfræðingar vinna saman að bættri heilsu þinni. Markmið okkar er að vera leiðandi í þróun á öruggri hágæða læknisþjónustu. 

Fréttabréf

Ertu með spurningar?

Ekki hika við að senda okkur línu.